Á þessum undarlega vetri sem nú er lokið tókst okkur í Erninum einungis að halda þrjár samverur rétt á meðan veiran losaði um takið á okkur tímabundið. Því tókum við því fegins hendi að geta haldið okkar árlegu vorhátíð og fagnað sumrinu saman. Hópur af börnum, foreldrum og öðrum forráðamönnum komu til okkar í Vídalínskirkju þar sem við héldum minningarstund, ræddum saman um sumarið fram undan í smærri hópum og lékum okkur svo í hoppuköstulum á milli þess sem grilluðum pylsum var rennt niður.
Oft er það þannig eftir missi að sumarfríið er öðruvísi en það var. Tími sem áður vakti eftirvæntingu er núna líka blandinn kvíða því fjölskyldutíminn er ekki eins þegar einn vantar. Þá er dýrmætt að geta í öruggum hópi sagt frá því sem vekur bæði gleði og áhyggjur og séð fyrir sér hvernig fjölskyldan getur notið þess að vera saman í ljósi sorgarinnar en ekki í skugga hennar.
Við í Erninum þökkum fyrir sumar og sól og horfum spennt á haustið fram undan þar sem við getum vonandi haldið ótrauð áfram í okkar starfi, laus undan samkomutakmörkunum!
Gleðilegt sumar.