Árið 2020 fer vel af stað hjá Erninum en nú eru janúar og febrúar samverurnar okkar búnar og tókust vel. Á síðustu samveru vorum við svo heppin að fá til okkar Margréti Blöndal, EMDR þerapista, hjúkrunarfræðing og handleiðara, til þess að fræða foreldra og forráðamenn um áföll og úrvinnslu þeirra. Það var mikil ánægja með hennar erindi en hún mun ræða við krakkana næst, 25. mars, á síðustu samveru okkar fyrir ferðalag.
Það er okkur mikið kappsmál að sjálfboðaliðarnir í Erninum séu sem best í stakk búnir til þess að leiðbeina og vera til staðar fyrir börnin í þeirra sorgarvinnu og þess vegna ætlum við að leggja enn meiri kraft í að mennta okkar flotta fólk í málefnum sorgarinnar. Með það að markmiði fengum við til okkar Vigfús Bjarna Albertsson og Gunnar Matthíasson sjúkrahúspresta sem héldu örnámskeið fyrir okkur um sorg barna og sorgarúrvinnslu. Þeirra fræðsla var afskaplega mikilvæg og mun nýtast okkur vel.
Næsta samvera er eins og áður segir 25. mars klukkan 17:15 í safnaðarheimili Vídalínskirkju og þar munu bæði börn og foreldrar/forráðamenn fá fræðslu í sitt hvor lagi áður en við förum yfir mikilvæg atriði varðandi ferðalagið í Vatnaskóg í apríl. Eftir það munum við borða saman kvöldmat og eiga gott samfélag.
Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum að við erum að glíma við nýja veiru hér á landi, kórónuveiruna, og félagið Örninn fylgist vel með gangi mála eins og aðrir. Við munum fylgja ráðleggingum landlæknis varðandi smitvarnir og að sjálfsögðu aðlaga okkar plön og dagskrá að tilmælum frá landlæknisembættinu. Nú er mikilvægt að hugsa vel um okkur sjálf og náungann og sýna þeim sem sem er ógnað af veirunni þá virðingu að vanda sig og fara varlega.