Um síðustu helgi fóru 17 sjálfboðaliðar með 33 börn upp í Vindáshlíð í Kjós og áttu þar frábæra helgi. Veðrið var töluvert skaplegra en við höfðum óttast svo við gátum verið heilmikið úti í fallegri náttúrunni og notið alls þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða.
Krakkarnir vörðu heilmiklum tíma í listasmiðju undir stjórn listakvennana okkar þriggja; Sigrúnar, Ollu og Eyju. Þar sköpuðu börnin verk sem táknuðu þann stuðning sem við höfum þörf fyrir í erfiðleikum og hvernig við förum að því að byggja lífið okkar upp aftur eftir áföll. Úr þessari vinnu urðu til mögnuð listaverk sem börnin tóku með sér heim til minningar um ferðina.
Á hverjum degi áttum við samtöl um sorgina og þær margþættu tilfinningar sem henni tilheyra ásamt því að skoða hvað við getum gert til að bregðast við þeim. Eitt bjargráðið er að hafa góðar minningar nærri sér og rækta áfram tilfinningatengslin við þau sem við höfum misst jafnvel þó að þau séu dáin. Það gerðum við m.a. með því að halda minningastundir bæði kvöldin, segja hinum frá ástvinum okkar og rifja upp dýrmæt augnablik.
Þar fyrir utan fór heilmikill tími í leiki, bras í eldhúsinu, ljúffengar máltíðir, ærslagang í íþróttahúsinu og spjall. Hópurinn var til mikillar fyrirmyndar alla helgina og andrúmsloftið á milli barnanna einkenndist af trausti og gleði.
Sjálfboðaliðar Arnarins fóru enn á ný heim með hjartað fullt af þakklæti yfir því að vera partur af því dýrmæta og mikilvæga verkefni sem Örninn er.