Ársskýrsla fyrir árið 2023
(Örninn táknar andlega vernd, flytur bænir, og færir styrk, hugrekki, visku, lýsingu í anda, lækningu, sköpun og þekkingu á leyndardóma).
Minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn er með aðstoð fyrir börn og foreldra/forráðamenn í sorgarferli.
Sjóðurinn var stofnaður árið 2018 af Heiðrúnu Jensdóttur og sr. Jónu Hrönn Bolladóttur fyrir börn sem hafa misst foreldri eða annan náinn ástvin og fjölskyldur þeirra.
Heiðrún hafði misst fullorðinn son sinn og sá að lítil úrræði voru til að aðstoða tíu ára barnabarn hennar sem var að syrgja föður sinn.
Ákveðið var að hafa sumarbúðir fyrir börn í sorgarferli og núna fimm árum síðar hefur verið farið með sjö hópa af börnum og unglingum í sumarbúðirnar Vindáshlíð og Vatnaskóg til að vinna saman með sorgina og finna úrræði sem geta hjálpað.
Á veturna er samvera mánaðarlega þar sem börnin og aðstandendur fá aðstoð fagfólks um málefni tengd sorg og áföllum, en í öllu starfinu er áherslan á von, kærleika, samkennd og gleði.
Árið 2021 bættist við hópur á Akureyri fyrir Norðurland og á þessu hausti fór verkefnastjóri Arnarins austur á land til að stofna þar nýjan hóp.
Með þessu er verið að styrkja mikilvæga úrvinnslu til framtíðar fyrir börn og unglinga á Íslandi sem hafa orðið fyrir sorg og áföllum. Örninn er orðið mjög mikilvægt lýðheilsuverkefni í íslensku samfélagi og eini staðurinn þar sem er verið að vinna með börn í sorg á heildstæðan hátt fjölskyldum að kostnaðarlausu.
Stjórn Arnarins
Í stjórn Arnarins eru:
- Heiðrún Jensdóttir matráður og upphafsmanneskja verkefnisins
- Anna Ýr Böðvarsdóttir lögfræðingur
- Lilja Ósk Úlfarsdóttir sálfræðingur og kennari
Verkefnastjóri Arnarins er Matthildur Bjarnadóttir prestur og sorgarráðgjafi og hennar aðstoðarmaður er Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur.
Stuðningur við starfið
Vídalínskirkja hefur verið mikilvægur stuðningsaðili starfsins með því að útvega húsnæði og prestar safnaðarins vinna að verkefnastjórn í samráði við stjórn Arnarins. Fyrrverandi forseta Íslands Guðni Th.Jóhannesson hefur verið verndari starfsins nánast frá upphafi og við þökkum fyrir hans stuðning allan.
Stærsta fjáröflun ársins fór fram í gegnum Reykjavíkurmaraþonið 19.ágúst árið 2023. Rúmlega 30 manns hlupu fyrir Örninn og það söfnuðust ríflega sjö milljónir. Dómkirkjan í Reykjavík lánaði endurgjaldslaust safnaðarheimili þeirra í Vonarstrætinu sem gerði þennan dag alveg einstakan. Dómkirkjunni er þökkuð þeirra stóra gjöf. Minningarsjóður um Jenný Lilju var líka með hlaupahóp þennan dag og stjórn hans ákvað að setja allan þeirra stuðning í Örninn. Einnig hefur Garðabær styrkt starfið ásamt félögum, klúbbum og einstaklingum. Allt er þetta þakkað af heilum hug.
Allt starfið borið upp af sjálfboðaliðum
Það skiptir okkur í Erninum gríðarlegu máli að passa upp á faglega þekkingu sjálfboðaliðanna okkar og vera dugleg að bæta við okkur og bjóða upp á reglulega fræðslufundi. Þess vegna fóru fjórir sjálfboðaliðar á vegum starfsins á stóra árlega ráðstefnu um sorg barna á vegum NACG – national alliance for children’s grief. Að þessu sinni eru hún haldin í Pittsburgh.
Á þremur dögum er fjöldinn allur af fyrirlestrum þar sem þau fengu að læra af fólki sem hefur áratuga reynslu af því að bjóða ungu fólki upp á stuðning eftir missi og reka samtök eins og Örninn. Þau sem fóru voru Matthildur Bjarnadóttir, Hjalti Jón Sverrisson, Heiðrún Jensdóttir og Ingunn Sif Höskuldsdóttir.
Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR heiðraði sr. Matthildi Bjarnadóttir, verkefnastjóra Arnarins, fyrir sín störf á síðasta ári, á aðalfundi félagsins þann í mars 2023. Þetta er mikil viðurkenning fyrir starfsemi Arnarins og við þökkum Bandalagi Kvenna í Reykjavík hjartanlega fyrir. (-Tekið af vef bandalagsins: ,,Þann 18. mars sl., var haldið 107. þing Bandalags kvenna í Reykjavík á Hallveigarstöðum. Þingið var fjölsótt og heppnaðist mjög vel í alla staði. Kona ársins 2022 var heiðruð en viðurkenninguna hlaut sr. Matthildur Bjarnadóttir fyrir störf sín í þágu barna sem misst hafa náinn ástvin. Hvatningarviðurkenningu ársins 2022 hlaut Henný Björk Ásgeirsdóttir fyrir störf sín í þágu ungra mæðra og barna. Báðar þessar konur hafa unnið ótrúlegt verk hvor á sínu sviði.”)
Þann 10. maí var viðrunarfund fyrir sjálfboðaliða til að ræða ferðina í Vatnaskóg, hvað gekk vel og hvað mátti betur fara. Það var boðið upp á góðan mat og allir sjálfboðaliðar fengu bókina í áfallafræðum eftir Kohl, við fengum afslátt upp á 140 þúsund af bókinni frá útgáfufélaginu og Innes gaf öllum sjálfboðaliðunum gjöf.
- nóvember 2023 var alþjóðlegur dagur barna í sorg.
Af því tilefni var haldið málþing í Vídalínskirkju í Garðabæ í beinu streymi. Málþingið var sett kl. 12:00 af forseta Íslands herra Guðna Th. Jóhannessyni og síðan hélt Alison Gilbert erindi um sorgarúrvinnslu.
Minningarstund var síðan í kirkjunni kl. 17:30. Ösp Eldjárn og Helga Ragnarsdóttir sáu um tónlistina. Guðmundur Freyr Sveinsson ávarpaði.
Allison Gilbert er mjög þekkt í Bandaríkjunum fyrir störf sín tengd sorg og sorgarúrvinnslu, en hún er ráðgjafi stjórnar stærstu sorgarsamtaka Bandaríkjanna fyrir fjölskyldur hermanna, TAPS (Tragedy Assistance Program for Survivors).
Hún var líka í stjórn landssamtaka um sorg barna, NACG, og segist vera mjög stolt af því að geta þjónað á þessum vettvangi.
Í viðtali í Morgunblaðinu sagði Alison Gilbert í tilefni af heimsókn sinni: „Áhugi minn á að hjálpa og styðja við börn sem hafa misst ástvini hefur bara aukist með árunum. “ En hún missti báða foreldra sína sem dóu úr krabbameini þegar hún var rétt rúmlega tvítug. Og hún bætir við:„Það sem minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn er að gera á Íslandi skiptir sköpum fyrir börn í landinu sem eru að glíma við sorg“
Samverur 2023
Samverur voru með foreldrum/forráðamönnum og börnunum, þann18. janúar, 22. febrúar, 15. mars, svo var vorhátíð 24. maí þar sem Valgerður Halldórsdóttir hjá stjúptengslum kom og ræddi við foreldra/forráðamenn og börnin nutu þess að skemmta sér í hoppuköstulum og svo voru grillaðar pylsur, Haustið 2023 voru samverur 20. september, þá kom sálfræðingur frá Litlu kvíðameðferðastöðinni og ræddi við foreldra/forráðamenn, 18. október ræddi Matthildur Bjarnadóttir við foreldra/forráðamenn um þau verkefni sem geta mætt syrgjendum eftir missi og hvernig þau geta birst börnum og fullorðnum á ólíkan hátt, 15. nóvember hélt Allison Gilbert fyrirlestur fyrir foreldra/forráðamenn um áframhaldi tengsl í gegnum minningar. Á jólasamverunni 13.desember fóru hópurinn allur að búa til leiðiskransa hjá Skógrækarfélagi Reykjavíkur upp við Elliðavatn, algjörlega yndisleg samvera og mótttökurnar frábærar fyrir utan notalega samveru með heitu súkkulaði og öðru góðgæti. Árið 2023 fengu börnin dagbækur sem þau unnu verkefni í, á samverunum. Þar áttu þau að teikna manneskjuna sem þau misstu, dýrmætar minningar sem þau eiga af sínum ástvini og líka gera verkefni þar sem þau geta komið auga á sína eigin styrkleika. Mæting á samverurnar voru afar góð, frá 100-120 manns þegar allir voru taldir með og alltaf var kvöldmatur í lokin sem skapar enn betra andrúmsloft.
Samverur á Norðurlandi voru 25. september í Akureyrarkirkju, 24. október á Húsavík og 30. nóvember í Laufási. Leiðtogar starfsins voru ánægð með mætinguna og hvernig til tókst.
Ferðalag í Vatnaskóg – 14.-16. apríl
Börn og sjálfboðaliðar nutu veðurblíðu og einstakrar náttúru í Vatnaskógi. Helgin einkenndist af vináttu og gleði í bland við sorgarúrvinnslu og sjálfstyrkingu. Við byrjuðum ferðina af krafti en Lalli töframaður kom á kvöldvöku til okkar á föstudeginum og skemmti hópnum af svo miklum krafti að við vorum komin með verk í kinnarnar af hlátri undir lokin! Eins og vanalega var lagt upp úr góðum mat og kökum en Baldur, Dista, Jóhann og Stella voru ofurteymi í eldhúsinu og sáu til þess að enginn varð svangur í eina mínútu 50 börn og unglingar fóru í ferðina.
Listasmiðjan var þungamiðja dagskrárinnar og listakonurnar okkar Sigrún, Olla og Eyja héldu utan um hópinn og hjálpuðu krökkunum að tjá sig í gegnum listina með ólíkum aðferðum.